Hótelhaldi lýkur í Laugargerðisskóla

Í fyrsta sinn í mörg ár verður ekki hótelhald í skólanum okkar í sumar. Þau Óli og Gunnsa koma því ekki til okkar eins og hinir farfuglarnir í vor og vissulega er sjónarsviptir af þeim og þeirra hér innan dyra.

Þau komu hingað á dögunum og tóku allt sitt hafurtask sem við hér í skólanum höfum notið góðs af og fengið að nota í gegnum árin. Fyrir það erum við afskaplega þakklát; sófar, stólar og súpuausur er eitthvað sem við þurfum nú að fara að leita eftir – því auðvitað munar um þegar heilt hótel hverfur af sviðinu. 

Það verður því svolítið skrítið vorið hjá okkur – engir hótelstarfsmenn á þönum við að gera allt klárt og hláturinn þeirra Óla og Gunnsu fær að óma einhvers staðar annars staðar. Kærar þakkir færum við þeim hjónum og dætrum þeirra fyrir árin öll í Laugargerði, samstarfið og skemmtunina. 

Við öll hér í skólanum óskum fjölskyldunni alls hins besta í nýjum verkefnum!