Skólaslit 2019

Laugargerði 25. maí 2019

 

Kæru nemendur, foreldrar, ættingjar og vinir

 

Velkomin á skólaslitin okkar.

Dagurinn er fagur – vorið hefur verið gott. Veturinn er að baki og við vonumst öll eftir björtu og hlýju sumri. Megi svo verða.

Yfir liðnum vetri er líka birta og ég minnist hans með hlýju, og hann hefur liðið ótrúlega hratt.

Við höfum átt gott samstarf við nágrannaskólana okkar líkt og verið hefur og nú er stefnan tekin á að auka enn samstarfið við Lýsuhólsskóla en báðir skólar telja það góðan kost.

Í vetur héldum við málþing á meðal nemenda þar sem farið var yfir hvað væri gott við skólann okkar, hvað gæti verið betra og hvað nemendur sjálfir gætu gert til að bæta skólabrag og aðstöðuna.

Þarna kom margt fram – sumt kom okkur hinum eldri á óvart. Ekkert þó eins og svör krakkana við því hvað þeim fannst best við skólann sinn. Þar voru þau nánast einróma í hópunum – það var hve hér væru fáir nemendur! Nokkuð sem ég átti alls ekki von á að heyra – við hin eldri lítum svo oft á það sem ókost, stundum óyfirstíganlegan þröskuld. En bragð er að þá barnið finnur!

Nemendur okkar telja að þau fái mun betri þjónustu hér en annars staðar, þeim þyki vænt um skólafélaga sína og nándin sé góð. Þau sögðu reyndar að kennararnir við skólann væru ótrúlega skemmtilegir, fyndnir og hressir – sem gladdi okkur öll náttúrulega!

Þetta vakti mig mjög til umhugsunar um mitt eigið viðhorf – stundum sjáum við ekki skóginn fyrir trjánum. Laugargerðisskóli er einn af örfáum fámennum skólum sem eftir eru í landinu – perla sem skín og á að fá að skína. Við erum öfunduð af nemendum okkar og tækifærum sem við getum boðið þeim, af öðrum kennurum – ,,já þið eruð náttúrulega svo fá að þið getið leyft ykkur að gera svona og svona“ – og svo er gjarnan dæst. Einmitt – í fæðinni felast möguleikar, nýtum þá! Við getum gert svo margt! Nýtum umhverfi okkar – einstakar náttúruperlur á heimsvísu – brjótum upp skólastarfið á allan mögulegan hátt til að víkka sjóndeildarhringinn. Gerum það!

Við erum öfunduð af nemendum okkar. Sem dæmi má nefna að í tengslum við að unnið er að innleiðingu ART hér við skólann sem er viðurkennd aðferð til að vinna með félagsfærni, siðferði og reiðistjórnun fóru tveir starfsmenn okkar  á ART-námskeið í haust og hafa nú fengið þjálfararéttindi. Þær fóru og kynntu starfið hér í Laugargerði sem hluta af lokaverkefni sínu og komu með dæmi úr tímum þar sem nemendur töluðu um  hvað þau væru hrædd við. Á meðan krakkarnir í stóru skólunum voru hrædd um að deyja í tölvuleikjun, voru okkar nemendur hræddir þegar þau færu á stökki niður brattar brekkur eða næðu ekki að stöðva kindasafnið, þar sem það kom æðandi niður hlíðarnar. Og styrkur þeirra var ekki að hafa lokið einhverjum borðum í tölvuleik – heldur einmitt hestamennskan, útivist og dýrin. Þetta vakti ómælda aðdáun viðstaddra, sem er auðvitað skiljanlegt. Nemendur okkar eru einstakir – umhverfi okkar allt og skólahverfið líka – þeir eru kjarninn í skólanum, gera hann að því sem hann er.

Lesferill sýnir miklar og góðar framfarir í lestri á meðal nemenda okkar, einkunnir á samræmdum prófum fara hækkandi og önnur stöðluð próf sýna góða stöðu nemenda okkar. Annað hvort væri það – eins og þjónustustigið er hátt! Og þannig á þetta að vera, þannig viljum við hafa þetta – við viljum færa nemendum okkar góð verkfæri út í lífið.

Krakkarnir nefndu líka að þó gott væri að vera í fámenninu þá vildu þau meiri samskipti á milli skólanna og t.d. fjölga löngum dögum og gera fleira með Lýsuhól. Ég og stjórn foreldrafélagsins lögðum því land undir fót og hittum Rósu deildarstjóra þar og fulltrúa foreldrafélagsins þeirra. Skemmst er frá því að segja að við höfum öll áhuga á því að auka samstarfið næsta vetur og nýta t.d. 1 dag á hvorri önn, seinni part í nokkurs konar val þar sem krakkarnir lærðu og þjálfuðu sig í einhverju áhugaverðu með aðkomu skólans. Og við erum byrjuð nú þegar. Lýsuhóll kom til okkar í vor og sáu BMX hjólasýningu, fóru í Tarzan leik, sund og að lokum borðuðum við öll saman. Hjólastrákarnir náðu upp frábærri stemmningu og þetta var með betri dögum, sem við viljum gjarnan endurtaka. – hann var líka góður dagurinn sem við áttum í Borgarfirðinum í Reykholti með miðstiginu okkar á meðan 9. bekkurinn fór í dekurferð um Borgarfjarðardali með Halla og Sveinbjörgu. Í lok ferðar gaf Halli okkur öllum svo ís – hvar í veröldinni er slíkt í boði nema hér? Í vor höfum við farið víða, skondrast hér um nágrennið og jafnvel litið með elsta hópinn yfir í Dalina sem á vel við þar sem Laxdæla var lesin nú í vetur. –Sögusvið hennar er stutt að sækja heim.

Við höldum því ótrauð fram á veginn. Við erum bjartsýn og glöð nú í vor – við erum ánægð með okkur. Bara svoldið montin verð ég að segja!

Og framundan eru verkefni í löngum bunum. Mönnun skólans gengur ágætlega og útlit fyrir góðan hóp hér næsta vetur með fjölbreytta þekkingu og færni – að ógleymdum öllum þeim sem við getum hóað í fengið til að hjálpa okkur við að gera enn betur. Vonandi heldur samstarfið áfram við Tónlistarskóla Snæfellsbæjar sem ég tel vera mjög til hagsbóta fyrir okkur öll.

Skólinn hefur fengið góðan styrk frá Endurmenntunarsjóði grunnskóla til að vinna að þróunarverkefni sem við köllum Vinnustofur í skóla margbreytileikans en þar höldum við áfram að þróa vinnu sem hófst í vetur og við höldum ótrauð áfram með. Þessi styrkur gerir okkur kleif að fá til liðs við okkur Ingvar Sigurgeirsson sem er flestu skólafólki vel kunnur. Hann ætlar einnig að aðstoða okkur við að móta skólastefnu og í haust náum við vonandi að halda skólamálaþing sveitarfélagsins með aðkomu sem allra flestra úr sveitarfélaginu og nágrönnum okkar í Kolbeinsstaðahreppi sem nýta skólann.

Ég þakka ykkur öllum kærlega fyrir veturinn, samstarfið og samveruna og óska ykkur öllum gleðilegs sumars. Kæra starfsfólk, nemendur, foreldrar, sveitarstjórn og skólanefnd takk fyrir samstarfið.

Laugargerðisskóla er hér með slitið vorið 2019, gleðilegt sumar!

Jarðfræðingar framtíðarinnar við Skriðuna
Fallegur skóladagur í Kolviðarnesi
Rýnihópur kynnir niðurstöður sínar
Á góðri stundu
Sauðburður skipar stóran sess í lífi nemenda okkar

Laugargerði í lok apríl 2019